Pálmi Rögg fertugur 14.07.1989
- “ort af litlu tilefni” sagði afmælisbarnið -
Árin líða ört sem fyrr
eins og flestir vita.
Því lögmál tímans kúra kyrr
í kulda bæði og hita.
Oft þó banka erillinn
á þér stríður lendi.
40 ára ferillinn
fór þér vel úr hendi.
Víða gengið virðist breytt
þó vantar sjálfan kroppinn,
eiginlega ekki neitt
upp í hæsta toppinn.
Það eru bara þeir sem ná
þangað - vertu feginn,
sem njóta þess í næði að ná
niður hinum megin.
Þó að tíminn líkur lest
lífsins brautir renni.
Ég finn þú verður fyrir rest
fallegt gamalmenni.
Ljóðagyðjan góðan skammt
gaf þér - öðrum smærra.
Efa bundið er það samt
að þú komist hærra.
Þótt um borg og byggðirnar
blési útnyrðingur.
Komstu í að kallast þar
kunnur hagyrðingur.
Leikirðu á oddi alls
yljar þú mörgu fési.
Allt frá býlum Austurdals
út að Sauðanesi.
Ég við þakka af heilum hug
hendingar og fleira.
Undanfarinn áratug
eða kannski meira.
Oft vill koma út úr mér
öfugt kveðin baga.
Að svo mæltu óska þér
alltaf góðra daga.
Með bestu kveðju og hamingjuóskum
Hjalti Gíslason
Hofsós
Bæta við ummælum
Til að bæta við ummælum þarf að skrá sig inn.
Innskrá